SS týnir lambaskrokkum

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

„Mér finnst skrítið hvernig þetta er hægt þar sem að skrokkarnir eru merktir með nafni bóndans og á miðanum stendur líka að þetta sé heimtekið. Ég er heldur ekki sátt við það að fá kjöt frá öðrum þegar maður vill sitt eigið kjöt.“

Þetta segir Antonía Helga Guðmundsdóttir, sauðfjárbóndi á Klausturhólum í Grímsnesi. Þar á bæ eru um þrjúhundruð fjár, og voru lömb send þaðan í sláturhús þann 22. september.

„Þá tókum við heim sex lambskrokka. Svo kom í ljós að þeir höfðu týnt öllum skrokkunum og fengum við í staðinn skrokka frá öðrum,“ segir Antonía. SS hafi boðið henni fría sögun á skrokkunum vegna þessa. Hún segir þetta ekki í fyrsta sinn sem skrokkar frá Klausturhólum týnast.

„Það er rétt, við höfum einnig lent í því að þeir týni sauðaskrokkum frá okkur oftar en einu sinni en við tökum þá alla heim þar sem að við fáum lítið fyrir þá og okkur finnst best sauðahangikjöt,“ segir Antonía. Nefnir hún nýlegt dæmi um týndan sauð þegar slátrað var 26. nóvember. „Þá ætlaði vinkona mín að fá skrokkinn og fór því í SS til að sækja hann, nei, þá voru þeir búnir að týna honum. Hún spurði þá hvað þeir ætluðu þá að gera og þeir sögðust ekkert geta gert annað en að láta hana hafa annan skrokk, sem væri þá raunar ekki sauður“, segir Antonía Helga.

SS harmar mistökin
„Ég harma og biðst velvirðingar á því að mistök hafi átt sér stað. Ég hef ekki fengið þetta tiltekna mál eða önnur sambærileg inn á borð til mín í haust enda eru þau alla jafna leyst á staðnum komi þau upp,“ segir Guðmundur Svavarsson, framleiðslustjóri SS, þegar leitað var viðbragða hjá honum vegna málsins. Hann segir heimtökuferli býsna flókið, með mörgum snertipunktum innanhúss og utan og erfitt sé að koma að fullu í veg fyrir mistök.

„Samhliða vexti í heimtöku höfum við leitast við að bæta ferla og aðstöðu, enda viljum við hafa þessa hluti í sem allra bestu lagi,“ segir Guðmundur. Hann segir jafnframt gott að fá ábendingar um það sem miður fer til að geta gert enn betur, eins og hann orðar það.

Fyrri greinHamar áfram í bikarnum – Þór úr leik
Næsta greinStálu dýnu, afruglara og eldhúsklukku