SS tekur í notkun nýtt vöruhús í Þorlákshöfn

Sláturfélag Suðurlands hefur tekið í notkun nýtt 1.500 fermetra vöruhús á hafnarsvæðinu í Þorlákshöfn og eru því vöruhús SS í Þorlákshöfn orðin samtals 3.500 fermetrar.

Í febrúar 2007 keypti SS 511 fermetra vöruhús við höfnina í Þorlákshöfn að Hafnarskeiði 12 ásamt ásamt 5.557 fermetra lóð auk þess að gera samkomulag við Sveitarfélagið Ölfus um úthlutun á viðbótar lóð að Hafnarskeiði 10a við hlið lóðarinnar.

Nýtt deiliskipulag var síðan samþykkt í febrúar 2013 þar sem lóðirnar voru sameinaðar. Athafnasvæðið er nú tæpir 9.500 fermetrar sem tryggir búvörudeild félagsins gott rými til vaxtar á komandi árum.

Undir lok árs 2013 hófust síðan framkvæmdir við 1. áfanga með byggingu á 1.500 fermetra vöruhúsi. Vöruhúsið var tekið í notkun haustið 2014 og hefur reynst í alla staði vel. Lokaáfangi uppbyggingar á vöruhúsum í Þorlákshöfn lauk síðan með byggingu á öðru 1.500 fermetra vöruhúsi í október 2016 en framkvæmdir hófust í ársbyrjun.

Að því er fram kemur í fréttatilkynningu hefur SS átt mjög góða samvinnu við Landstólpa sem byggði bæði vöruhúsin.

Aðstaðan í Þorlákshöfn er SS mjög mikilvæg vegna uppbyggingar við sölu á Yara áburði. Árlega fara í gegnum aðstöðu félagsins í Þorlákshöfn um 10 þúsund tonn af áburði.

SS verður með opið hús að Hafnarskeiði 12 þann 3. nóvember kl. 16 til 19.

Fyrri greinMotley skoraði 50 stig í sigri á Val
Næsta greinBergrós, Sunneva og Dagný semja við Selfoss