SS og Mímir fasteignir undirrita samning um byggingu átta íbúða

Í síðustu viku undirrituðu fulltrúar Sláturfélags Suðurlands og Mímis fasteigna ehf. verksamning um byggingu fyrsta áfanga af þremur í byggingu alls 24 íbúða á Hvolsvelli til útleigu til starfsfólks SS.

Þessi áfangi felst í byggingu raðhúss með átta fimmtíu fermetra íbúðum. Arkitektahönnun er unnin af Teiknistofu arkitekta, Gylfa Guðjónssyni og félögum, en Mímir fasteignafélag ehf. annast alla aðra hönnun, smíði og frágang íbúðanna innan- og utanhúss ásamt lóðafrágangi.

Fyrsta skóflustungan var tekin síðastliðinn laugardag og var þá grafið fyrir húsinu, sem mun rísa í Gunnarsgerði 2 á Hvolsvelli, á lóð sem Rangárþing eystra úthlutaði SS í nýrri götu.

Hjá SS á Hvolsvelli vinna að jafnaði 160-170 manns. Í tilkynningu frá SS segir að þenslan á húsnæðismarkaðinum gildi einnig um Hvolsvöll og það séu hagmunir SS að geta tryggt starfsfólki sem þess óskar aðgang að vönduðu leiguhúsnæði til langs tíma.

Mímir fasteignir hefur samið við heimamenn á Hvolsvelli um undirverktöku. Gröfuþjónusta Þormars sér um jarðvinnu og Rafmagnsverkstæði Ragnars annast raflagnir. Þá munu Pípulagnir Helga á Selfossi sjá um lagnavinnu.

Fyrri greinBarbára Sól semur til 2020
Næsta greinEinvala lið skálda í Bókakaffinu