SS með sautján verðlaun – átta gullverðlaun

Kjötiðnaðarmenn SS gerðu góða ferð á fagkeppni Meistarafélags kjötiðnaðarmanna 2012, sem haldin var í lok síðustu viku og á laugardag.

Hlutu þeir sautján verðlaun fyrir vörur sínar og auk þess verðlaun fyrir athyglisverðustu nýjung, bestu vöru úr alifuglakjöti og sérverðlaun í flokknum hráar og soðnar kjötvörur.

Jón Þorsteinsson hafnaði í öðru sæti um titilinn „Kjötmeistari Íslands“ með 245 stig, aðeins einu stigi undir sigurvegaranum. Jón hlaut einnig verðlaun fyrir „lambabeikon“ sem athyglisverðustu nýjung keppninnar, þrenn gullverðlaun (skræður, lambabeikon, Salami Caballus), tvenn silfurverðlaun (Herðingur, Grísakrikar) og eitt brons (Súr hrossasíða).

Hermann Bjarki Rúnarsson fékk verðlaun fyrir bestu vöru unna úr alifuglakjöti „Kjúklinga Bradwurst“ og auk þess gullverðlaun fyrir sömu vöru.

Steinar Þórarinsson vann flokkaverðlaun í vöruflokknum hráar og soðnar kjötvörur fyrir „Grafið lambainnralæri“, sem jafnframt fékk gullverðlaun. Auk þess fékk Steinar ein silfurverðlaun (Grísalifrarkæfa með hindberjahlaupi).

Björgvin Bjarnason hlaut ein gullverðlaun (Veiðipylsa) og ein bronsverðlaun (Reykt paté)

Samúel Guðmundsson hlaut ein silfurverðlaun (Kjúklingarúllupylsa) og ein bronsverðlaun (Reyktar kjúklingarúllur).

Jónas Pálmar Björnsson hlaut tvenn gullverðlaun (Hrossahangiálegg, Reykt lifrarkæfa) og ein silfurverðlaun (Piparosta grillpylsa).

Oddur Árnason hlaut ein silfurverðlaun (Reyktar lifrarpylsur) og ein bronsverðlaun (Reykt framhryggsfille).

Keppnin fer þannig fram að kjötiðnaðarmenn senda inn vörur með nafnleynd til dómarahóps, sem dæmir vörurnar eftir faglegum gæðum. Hver keppandi má senda inn allt að 10 vörur til keppninnar. Allar vörur byrja með fullt hús stiga eða 50 stig. Dómarar leita síðan að öllum hugsanlegum göllum og við hvern galla sem finnst fækkar stigum. Til að hljóta gullverðlaun þarf vara að vera nánast gallalaus með 49-50 stig. Til að fá silfurverðlaun má varan hafa lítilsháttar galla og hafa 46-48 stig. Til að fá bronsverðlaun þarf að hafa 42-45 stig.

Fyrri greinÍslensk klassík á sólarströnd
Næsta greinMögulega skipt um gólf á þessu ári