Sr. Kristján settur í embætti

Fjölmenni var við vígsluathöfn í Skálholti í dag þar sem biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, setti sr. Kristján Val Ingólfsson í embætti vígslubiskups í Skálholtsumdæmi.

Sr. Egill Hallgrímsson, sóknarprestur í Skálholti, og sr. Kristinn Ólason rektor þjónuðu fyrir altari en vígsluvottar voru prestar víða af landinu og biskupar nágrannalandanna eða fulltrúar þeirra.

„Um leið er þetta hús allra þeirra sem inn koma, hverrar trúar sem þeir eru og hver svo sem ástæða inngöngunnar er. Þetta er opið hús og eins sjaldan lokað og mögulegt er. Hér kemur fólk sem hefur áhuga á byggingarlist, á tónlist, á myndlist, á sögu, á því að eiga stefnumót trúarinnar á helgum stað, eða alveg engan áhuga á nokkru nema kannski eigin spegilmynd. En á móti þeim öllum sem inn ganga kemur Kristur. Gangandi út úr náttúrulegum litum Biskupstungnanna og um leið allra staða íslenskrar náttúru,“ sagði sr. Kristján Valur í ávarpi sínu við vígsluathöfnina í dag.

Kristján Valur tók prestsvígslu árið 1974 og hefur síðan þjónað sem sóknarprestur, nú síðast á Þingvöllum, auk ýmissa starfa á Biskupsstofu.