Sr. Kristinn fluttur til Danmerkur

Sr. Kristinn Ágúst Friðfinnsson, sóknarprestur á Selfossi, er fluttur til Kaupmannahafnar ásamt konu sinni, Önnu Margréti Guðmundsdóttur, en hann er í ársleyfi frá Selfosskirkju.

“Ég nýtti mér samningsbundinn námsleyfisrétt minn og er í námi hér við Kaupmannahafnarháskóla í sáttamiðlun. Sáttamiðlun tekur til stórra og smárra deilumála, allt frá einstaklingsdeilum til milliríkjadeilna. Í Noregi tekst t.d. að ljúka um 60% einkamála með sáttamiðlun,” sagði Kristinn í samtali við sunnlenska.is en hann mun snúa aftur til starfa í Selfosskirkju 1. september 2013.

Sr. Axel Árnason Njarðvík, héraðsprestur, mun leysa sr. Kristinn af í leyfinu en sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson mun gegna starfi sóknarprests á meðan.