Sr. Gunnbjörg Óladóttir var á dögunum ráðin héraðsprestur í Suðurprófastsdæmi með sérstakri þjónustu við Fellsmúlaprestakall.
Gunnbjörg er fædd í Reykjavík árið 1964 og ólst upp á Suðurlandi, Selfossi og Grænlandi, en var allan barnaskólaaldurinn í Reykjavík. Hún er alin upp í stórri fjölskyldu, er dóttir þeirra Óla Ágústssonar og Ástu Jónsdóttur og á ættir að rekja til Kirkjulækjar í Fljótshlíð.
Gunnbjörg lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1986, starfaði hjá Samhjálp í 18 ár með hléum og lauk BA námi í guðfræði og heimspeki árið 1994. Árið 1998 hélt hún til Edinborgar og lauk þaðan mastersgráðu í hagnýtri guðfræði árið 1999.
Á árunum 2006 til 2018 starfaði hún hjá Brim – Seafood á skrifstofu forstjóra og að þeim tíma loknum færði hún sig til baka í guðfræðina. Hún vígðist í Dómkirkjunni í Reykjavík árið 2021 til Noregs og síðustu fjögur ár hefur hún starfað sem sóknarprestur í Kvam og Skåbu og síðar í Sel.