Sr. Baldur segir sig frá Kirkjuþingi

Sr. Baldur Kristjánsson, sóknarprestur í Þorlákshöfn, hefur sagt sig frá Kirkjuþingi sem fjalla mun um mál Ólafs Skúlasonar, biskups, en Baldur var biskupsritari Ólafs.

Sr. Baldur birti eftirfarandi yfirlýsingu á bloggi sínu á Eyjunni í morgun:

,,Rannsóknarnefnd sú sem Kirkjuþing stofnaði til til þess að rannsaka viðbrögð kirkjunnar við ásökunum á hendur Ólafi Skúlasyni gerir sérstakar athugasemd við það að ég skuli hafa tekið ákvörðun um að sitja fundi stjórnar Prestafélags Íslands í febrúar og mars 1996 þegar málefni sem snertu kynferðisafbrot þáverandi biskups voru til umfjöllunar. Málið var þá til umfjöllunar hjá Siðanefnd Prestafélagsins. Hún gerir einnig athugasemdir við það að aðrir stjórnarmeðlimir hafi ekki kosið mig út.

Þetta er alveg hárrétt athugasemd. Ég átti auðvitað að segja mig frá þessu strax. Það var auðvitað ekki hægt að búast við því að ég væri hæfur til að fjalla um þessi mál þar sem það snerti svo mjög minn yfirmann.

Þegar ég lít til baka yfir þetta tímabil sé ég eftir að hafa verið þarna og iðrast þess að hafa ekki einfaldlega sagt mig úr stjórn Prestafélagsins. Þar var ég, í febrúar og mars 1996, einfaldlega of nálægur málinu og of háður biskupi og lögfræðingum hans.

Ég hef sagt mig frá Kirkjuþinginu á morgun, þriðjudag. Ég tel að viðbrögð þess verði trúverðugri því færri sem þar eru sem komu við sögu. Frekari viðbrögð af minni hálfu birtast síðar en óneitanlega hef ég hugleitt ýmislegt. Ég fékk ofanígjöf frá nefndinni. Undan því verður ekki vikist.

Og þær Sigrún Pálína Ingvarsdóttir, Dagbjört Guðmundsdóttir og Stefanía Þorgrímsdóttir eiga alla mína samúð og stuðning og virðingu. Ég hef áður beðið Sigrúnu og Dagbjörtu fyrirgefningar persónulega fyrir mína hönd og kirkjunnar og ítreka það hér og bið Stefáníu að sjálfsögðu fyrirgefningar líka.”