Spyrja biskup um fordæmisgildi ákvörðunar um Selfosskirkju

Ágreinings gætir enn, þar á meðal í prestastéttinni, um hvernig túlka beri ákvörðun biskups um skiptingu starfa í Selfossprestakalli.

Stjórn prestafélagsins hyggst senda biskupi bréf og fara fram á frekari útskýringar á orðum hans og túlkun.

Séra Guðbjörg Jóhannsdóttir, formaður prestafélagsins, segist í samtali við Sunnlenska ekki vilja túlka orð biskups á einn eða annan veg, félagið sé fyrst og fremst að spyrja út í merkingu ákvörðunar biskups og hvort hún sé fordæmisgefandi. Hún segir stjórnina þó meðvitaða um sérstakar aðstæður í Selfossprestakalli, þar sem nýr sóknarprestur var settur yfir kirkjuna í kjölfar ákvörðunar kirkjuþings um sameiningu prestakalla.

Guðbjörg segir sannarlega óvanalegt ef fela á prestum einhverskonar stjórn eða forystu umfram sóknarprest ef það sé niðurstaða biskups.

Í tilkynningu frá biskupi þar sem hann kunngjörir ákvörðun sína segir orðrétt: „Sóknarprestur er í fyrirsvari um kirkjulegt starf í sóknum prestakallsins og hefur forystu um mótun þess og skipulag.“ Á öðrum stað segir síðan… „að prestur hafi umsjón með daglegu kirkjustarfi í Selfosskirkju…“. „Það er helst þetta sem þarfnast útskýringar,“ segir sr. Guðbjörg.

Fyrri grein„Allt of mikil virðing“
Næsta greinÞjónustuhús kostar um 50 milljónir