„Spurning um mannréttindi“

„Þetta er farið að há í fyrirtækjarekstri og möguleikum fólks til að nýta sér netið í atvinnu og námi,“ segir Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri í Bláskógabyggð og íbúi í Ásahreppi.

Einstaklingar og fyrirtæki í Ásahreppi, Rangárþingi ytra og Bláskógabyggð berjast nú fyrir því að nettengingar þar verði bættar. Hraðasta línubundna tengingin á þessum svæðum nú er ISDN.

„Ég hef ítrekað rætt við Símann, því ég er í viðskiptum þar, og mér hefur bara verið hafnað,“ segir Valtýr, en ástæðan fyrir því er að ekki er búnaður í símstöðinni að Arnkötlustöðum til að hægt sé að bjóða upp á ADSL tengingu. Hann hefur undanfarin fimm ár óskað eftir svörum við því hvað sé hægt að gera.

„Ef menn ætla að hafa þetta svona þá er það ákveðið svar að í þessu landi búa þær þjóðir, A og B,“ segir Valtýr. „Mér finnst þetta bara spurning um mannréttindi.“

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur sent bréf til ráðuneyta, þingmanna og fjarskiptafyrirtækja þar sem kvartað er yfir þessu ástandi. Þá hefur hópur fólks, þar á meðal Valtýr, í Rangárþingi ytra og Ásahreppi safnað 29 undirskriftum frá einstaklingum og fyrirtækjum sem vill ADSL nettengingu og sjónvarpsmóttöku. Með undirskriftunum skuldbindur fólkið sig til þess að kaupa þessa þjónustu yrði hún í boði.

„Það hefur verið talað um tuttugu til þrjátíu undirskriftir á þéttbýlisstöðum sem þurfti til þess að geta kostað og staðið undir ADSL tengingu. Mér finnst við ekkert vera fara fram á mikið, við förum bara fram á jafnrétti,“ segir Valtýr að lokum.

Fyrri greinGekk berserksgang á Hellu
Næsta greinBruggari gróf landa í jörðu