Vinnsla var stöðvuð í Vatnsfellsstöð í upphafi mánaðarins eftir að vart varð við leka nálægt inntaksmannvirkjum stöðvarinnar.
Inntakslónið var tæmt og reyndist ástæða lekans vera sprunga í jarðlögum, þvert á inntaksskurð stöðvarinnar.
Í tilkynningu frá Landsvirkjun segir að unnið sé að viðgerð en reikna má með að vinnslan verði stopp í allt að tvo mánuði.
Vatnsfellsstöð er efsta virkjun á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu en nóg vatn er í Krókslóni til að þær sex virkjanir sem eru fyrir neðan haldi áfram orkuvinnslu. Gott innrennsli hefur verið á öllum vatnasvæðum Landsvirkjunar síðustu vikur og mun stöðvun Vatnsfellsstöðvar því ekki hafa áhrif á framboð raforku úr vinnslukerfi Landsvirkjunar til skamms tíma.

