Sprengivirkni í gosinu dvínar

Sprengivirkni í Eyjafjallajökli virðist hafa dvínað frá því í gær.

Gufuvirkni er við hrauntunguna í Gígjökli sem bendir til bráðnunar íss í tröðinni, en er ekkert í líkingu við gufuvirkni þegar hraunstraumurinn var hvað virkastur.

Gosmökkurinn rís lægra nú en í gær og er ljósari, hann leggur fyrr undan vindi og fellur ekki eins mikið úr honum og í gær. Gígur heldur áfram að hlaðast upp í kringum gosopið í ískatlinum. Hraunstraumurinn til norðurs er á svipuðum slóðum og síðustu tvo daga.

Gjóskufall hófst í Vík kl. 21 í gærkvöld, ösku rigndi niður. Öskufall nær út á miðjan Mýrdalssand í 55-60 km fjarlægð frá gosinu.

Við Markarfljóstbrú hefur ekki orðið vart við flóðgusur frá Gígjökli síðasta sólarhringinn. Leiðni hefur þar farið lækkandi og sjást nú dæmigerðar dægursveiflur í vatnsmagni og hita.

Órói er svipaður og í gær, lágur líkt og hann var að jafnaði 14-17. apríl. Jarðskjálftar mælast enn sunnan við og undir toppgíg en færri en í gær. GPS-mælingar umhverfis Eyjafjallajökul sýna ekki verulega heildarfærslu, sem bendir til þess að hægt hafi á útþenslunni sem greindist í gær. Ekkert bendir til gosloka.

Þetta er byggt á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands frá kl. 16 í dag.

Fyrri greinPokaball hjónaklúbbsins á Þingborg
Næsta greinKjartan tekur við keflinu af Önnu Birnu