„Sprenging í hjálmanotkun“

„Hjólavertíðin byrjar fyrr en venjulega, eða mánuði fyrr,“ segir Helgi Jósepsson í Hjólabæ á Selfossi. Helgi segir að betra veður hafi þar mikil áhrif en auk þess hefur fólk meiri pening milli handanna í ár en í fyrra.

Að sögn Helga eru fleiri að leita sér að hjólum. „Fólk er að kaupa sér betri hjól en áður og fólk er farið að líta á þetta meira sem sport. Undanfarin ár hafa götuhjólin verið vinsælust en nú eru svokölluð Cycles Cross hjól svolítið heit,“ segir Helgi og bætir því við á þannig hjóli geti maður hjólað í gegngum Tryggvagarð án þess að fljúga á hausinn.

„Fólk er einnig hætt að hlaða eins miklu á hjólin og áður, eins og til dæmis bögglabera eða körfu. Kemur það út frá því að það er litið meira á þetta sem sport,“ segir Helgi sem hefur rekið Hjólabæ ásamt eiginkonu sinni, Hrafnhildi Guðmundsdóttur, frá árinu 2002. Sökum anna hafa þau hjónin þó lítinn tíma sjálf fyrir hjólreiðar og taka sitt sumarfrí að vetri til.

Mikil hugafarsbreyting
„Það hefur orðið sprenging í hjálmanotkun og mikil hugarfarsbreyting. Það hefur ekkert með útlitið á hjálmunum að gera. Hjálmar eru einfaldlega orðnir eins og öryggisbelti í bíl – ómissandi öryggistæki. Fólk er heldur ekki að leita að ódýrasta hjálminum heldur þeim þægilegasta,“ segir Helgi.

Aðspurður hvað mætti betur fara í hjólamenningu í Árborg segir Helgi að bærinn mætti vera duglegri að sópa. „Það þarf að sópa gangstéttarnar líka, ekki bara göturnar. Það er mikið af glerbrotum og fínum flísum á gangstéttunum sem fara svo í dekkin á hjólunum og sprengja. Svo mættu að auðvitað vera fleiri hjólreiðastígar,“ segir Helgi að lokum.

Fyrri greinMýrdælingur í Lundúnum skrifar bók um heimahagana
Næsta greinSelfoss í úrvalsdeildina