Sprenging í fjölda göngufólks

Þessa dagana vinnur Skógrækt ríkisins að stígaviðhaldi á gönguleiðum í skógum Goðalands.

Skógar Goðalands og Þórmerkur hafa verið í umsjón Skógræktar ríkisins síðan á þriðja áratug síðustu aldar. Fyrstu áratugina var aðal áherslan lögð á beitarfriðun og girðingaviðhald, en síðustu áratugi hefur áherslan verið á að viðhalda gönguleiðum um svæðið.

Sívaxandi fjöldi ferðamanna sækir svæðið heim og liggja tvær vinsælustu gönguleiðir landsins um svæðin, þ.e. Laugarvegurinn sem endar í Þórmörk og leiðin yfir Fimmvörðuháls sem fer um Goðaland.

Eftir eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010 hefur orðið sprenging í fjölda göngufólks um svæðið og er búist við auknum fjölda þar á næstu árum, allt að 100 þúsund manns. Vegna þessa hafa stígar látið mjög á sjá og á sumum stöðum hafa orðið gróður og jarðvegsskemmdir af traðki. Því er mikil áhersla lögð á að bæta gönguleiðir eins og hægt er bæði til að vernda náttúru svæðisins og auka öryggi ferðamanna.

Vinir Þórsmerkur sem eru samtök sem hafa það að markmiði að standa vörð um náttúru á Þórsmerkursvæðinu og að bæta aðgengi almennings að svæðinu, fengu veglega styrki til stígaviðhalds þetta árið bæði frá Ferðamálastofu, Pokasjóði og sumarvinnuátaki Ferðamálastofu. Ennfremur hefur Skógræktinni borist góður liðsauki frá sjálfboðaliðahópum Umhverfisstofnunar en 10-12 manna hópar hafa verið við störf á svæðinu síðustu vikur. Auk sjálfboðaliðahópanna hefur Skógrækt ríkisins ráðið þrjá sumarstarfsmenn í tengslum við Sumarvinnuátak námsmanna sem Vinnumálastofnun styrkir.

Hefur hópurinn unnið mikið og gott starf síðustu vikur og endurbætt stíga í næsta nágrenni við Bása, þ.á.m. leiðina upp á Réttarfell, Básahringinn og upphaf stígsins upp á Fimmvörðuháls í Strákagili.

Stígarnir eru lagaðir með þeim hætti að setja þrep þar sem þess er þörf og kurl í stígana þar sem mold er undir. Ennfremur er vatni beint af stígunum með sk. þröskuldum, en það er einn mikilvægasti þátturinn í því að forðast úrrennsli úr stígunum sem liggja oft í miklum halla. Auk þess að laga sjálfa stígana hafa hóparnir lokað gömlum rofum og stígum með því að leggja torf og hrís í eldri farvegi.

Frétt á vef Skógræktarinnar