Sprengdu rúðu í bakaríi

Lögreglan á Selfossi hafði afskipti af þremur 13 ára drengjum á milli jóla og nýárs en þeir sprengdu rúðu í bakaríi með skottertu.

Atvikið átti sér stað á fimmtudagskvöld en drengirnir gerðu sér að leik að stilla tertunni upp framan við rúðu í Almarsbakaríi á Selfossi með þeim afleiðingum að rúðan brotnaði.

Drengirnir höfðu fengið annan eldri til að kaupa fyrir sig flugeldadót sem þeir sprengdu hér og þar um bæinn. Þeir eru ósakhæfir en barnaverndaryfirvöld munu fá formlega tilkynningu um atvikið frá lögreglu.

Sama kvöld var slökkvilið sent að húsi Póstsins við Austurveg á Selfossi vegna reyks sem barst frá póstkassa utan við húsið. Talið er að logandi flugeldi hafi verið troðið í póstkassann. Ekki er talið að tjón hafi hlotist af.