Sprautuðu úr duftslökkvitækjum inn um bréfalúgur

Óprúttnir aðilar gerðu sér það að leik í nótt að tæma úr duftslökkvitækjum inn um bréfalúgur á tveimur húsum við Tryggvagötu á Selfossi.

Lögreglan á Selfossi fékk tilkynningar um þetta í morgun en ekki er vitað hverjir voru þarna að verki.

Duftið úr tækjunum er mjög fíngert og smýgur um allt og sjá húsráðendur fram á mikla vinnu við þrif auk þess sem raftæki geta hafa orðið fyrir tjóni. Bæði húsin eru tveggja hæða og er slökkviduft um allt hús.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi er líklegt að skemmdarvargarnir hafi verið á ferðinni á milli kl. 4 og 6 í morgun. Þeir sem hafa einhverjar upplýsingar um málið eða hafa séð til mannaferða eru beðnir um að snúa sér til lögreglunnar í síma 480-1010.