Sporður Sólheimajökuls lyftist – Óvissustigi lýst yfir

Mynd úr safni. Ljósmynd/Hvolsskóli

Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Hvolsvelli ákveðið að lýsa yfir óvissustigi við Sólheimajökul. Undanfarnar vikur hafa aðstæður við sporð Sólheimajökuls breyst hratt.

Sporður jökulsins gengur nú fram í jökullón og að undanförnu hafa jakar brotnað framanúr jökulsporðinum og fallið í lónið. Við það að jökullinn gengur fram í lónið lyftist sporður jökulsins og nú síðustu daga hefur fremsti hluti sporðsins lyfst um 1,5 metra, þá hafa heyrst brestir í jöklinum í dag.

Lokað verður fyrir umferð bíla niður á bílastæðið sem er næst jökullóninu. Ferðamönnum er bent á að fara ekki fram á flata hluta jökulsporðsins því ekki er ljóst hvort hann getur brotnað framan af jöklinum í hluta eða heild. Ef stærri stykki brotna framan af jöklinum ryðja þau frá sér vatni og það getur valdið flóðbylgju á flatlendinu við jökullónið.

Óvissustigi verður haldið að minnsta kosti fram í vikuna eða þar til sérfræðingar hafa metið aðstæður á vettvangi og afstaða verið tekin til niðurstaðna þeirra.

Fyrri greinÖkumenn hvílist áður en sest er undir stýri
Næsta greinHSK fékk fyrirmyndarbikarinn