Spiluðu á stórtónleikum í Gautaborg

Í lok júní fór stór hópur frá Lúðrasveit Tónlistarskóla Árnesinga, frá Selfossi og Þorlákshöfn, á Musikfestival í Gautaborg í Svíþjóð.

Í för voru 46 ungmenni og fararstjórar frá Þorlákshöfn og Selfossi. Þegar til Gautaborgar var komið tóku krakkarnir þátt í æfingabúðum ásamt 250 ungmennum frá Noregi. Dagarnir voru byggðir þannig upp að fyrir hádegi voru þau á æfingum en eftir hádegi voru spilaðir tónleikar í skemmtigarðinum Liseberg og farið í skrúðgöngu.

Einnig spiluðu krakkarnir á fljótabáti sem sigldi um Gautaborg. Síðasta kvöldið voru haldnir sameiginlegir tónleikar með öllum þátttakendum í Konserthúsi Gautaborgar.

Á vef Sveitarfélagsins Ölfuss kemur fram að ferðin hafi heppnst í alla staði frábærlega. Krakkarnir fengu hrós bæði frá flugfreyjum og mótshöldurum fyrir prúðmennsku og tónlistarflutning.

Vefur Ölfuss

Fyrri greinGóður kippur í Veiðivötnum
Næsta greinÖrnefnaskilti afhjúpað við Strandarkirkju