Spennt að sjá hvort breytingin skili betri líðan og ríkulegri uppskeru

Nemendur gengu á Laugarvatnsfjall í blíðunni þann 5. september. Ljósmynd/Aðsend

Sú breyting var gerð í Menntaskólanum að Laugarvatni í haust að allt skólahald hefst nú klukkan 8:30 í stað 8:15, eins og venja er í flest öllum framhaldsskólum landsins.

„Við höfum lengi haft áhuga á velferð nemenda okkar hér á Laugarvatni og starfsfólk og kennarar hafa verið ötulir við að nýta sína sérfræðiþekkingu til að koma með hugmyndir sem gagnast þeim til hagsbóta. Það hefur verið rætt hér undanfarin misseri að rannsóknir sýni fram á að líkamsklukka ungs fólks sé oft þannig stillt að þau sofni seint, vilji sofa lengur á morgnana og þurfi að sofa töluvert. Oftar en ekki er unga fólkið okkar að sofa of lítið,“ segir Jóna Katrín Hilmarsdóttir, skólameistari, í samtali við sunnlenska.is.

„Við munum fylgjast grannt með framgangi þessarar tilraunar í vetur og erum spennt að sjá hvort þessi hóflega breyting skili okkur bættri líðan og ríkulegri uppskeru í námi,“ segir Jóna Katrín en þess má geta að 136 nemendur eru við skólann í vetur.

Jóna Katrín Hilmarsdóttir, skólameistari. Ljósmynd/Aðsend

Munar um þessar auka 15 mínútur
Að sögn Jónu Katrínar mælist breytingin vel fyrir. „Nú strax í upphafi annar eru vísbendingar um að morgnarnir fari rólegar af stað, minni asi. Ekki síst hefur starfsfólk sem koma þarf börnum í leikskóla og skóla á morgnana talað um að það muni miklu um þessar auka 15 mínútur.“

„Almennt séð hafa viðtökur verið góðar við þessari breytingu en við munum ekki mynda okkur skoðun um hvort breytingin verður til góðra áhrifa fyrr en í vor. Ef vel gengur og jákvæð teikn sjást í skólastarfinu næsta vor er meira en líklegt en að um varanlega breytingu verði að ræða í skólastarfi Menntaskólans að Laugarvatni.“

Ármaður sér um að vekja alla á heimavistinni
Það er fleira en bara svefninn sem Menntaskólanum að Laugarvatni er umhugað um þegar kemur að heilsu nemenda og starfsfólks. „Við munum einnig leggja áherslu á mikilvægi góðrar næringar í vetur og í lok september munum við halda svokallaða Ármannsviku, þar sem allir nemendur skólans mæta saman í morgunmat og verður sérstök vakning á heimavistum í tengslum við það.“

„Ármannsvika byggir á gamalli, aflagðri hefð þegar á hverri heimavist var svokallaður Ármaður sem sá um að vekja alla vistarbúa á hverjum morgni. Okkar áhersla í vetur í skólastarfinu verður á svefn og næringu og við munum flétta þetta inn í lífsleikni og umsjónarkennslu þegar það á við.“

Vökul augu skólameistarans fylgjast með gleðigöngu nemenda á dögunum. Ljósmynd/Aðsend

Kostur að ekki opni allir á sama tíma
„Aðrir framhaldsskólar byrja fyrr, aðrir byrja seinna en við, og það eru almennt vísbendingar um að það geti verið hollt þeim sem búa svona norðarlega á hnettinum að hefja daginn seinna en þeir sem búa við meiri dagsbirtu. En almennt séð er það snjallt á þéttbýlum svæðum að skólar og stofnanir hefji ekki opnunartíma sinn á sama tíma. Til að mynda varðandi umferðarflæði í gegnum borgir og bæi, þá er gott að fólk fari af stað á mismunandi tímum.“

Jóna Katrín segir að sveigjanleiki í mætingu á morgnana sé einnig kostur fyrir þá sem eiga ung börn. „Það er því ekki neitt eitt svar rétt varðandi upphaf skóla og í raun æskilegt að taka mið af þeim takti sem ríkir í hverju samfélagi fyrir sig. Kannski mætti sjá fyrir sér að grunnskólar hefjist upp úr kl. 8 en framhaldsskólar kl. 9.“

Leggja áherslu á samveruna
„Skólastarfið hefur farið afar vel af stað þetta haustið og það var bjart yfir nemendum þegar þau mættu hér í haust, tilbúin að takast á við námið. Við höfum nú loksins leyfi til að haga skólastarfi með hefðbundnum hætti og ætlum að nýta veturinn vel til að hlúa að okkar nemendum og efla nám og félagslíf. En ekki síst að leggja áherslu á samveruna sem við fórum á mis við undanfarin tvö ár.“

„Það sem af er önninni höfum við tekið á móti nýnemum með glæsilegri gleðigöngu og skírn í Laugarvatni og allur skólinn gekk svo á Laugarvatnsfjall þann 5. september síðastliðinn í rúmlega 20 stiga hita. Það var algerlega dásamlegur dagur,“ segir Jóna Katrín að lokum.

Hefð er fyrir því að skíra nýnema í Laugarvatni. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinElínborg Katla klár í slaginn
Næsta greinSif semur til tveggja ára