Spennandi starfsár framundan

Skráning í skátastarf vetrarins hjá Fossbúum á Selfossi verður í næstu viku en spennandi starfsár er framundan hjá félaginu.

Bandalag íslenskra skáta er um þessar mundir að gefa út nýjar bækur til notkunar í starfinu og sl. mánudag komu fulltrúar BÍS í heimsókn til Fossbúa á Selfossi til að kynna nýju skátadagskrána og bækurnar. Sama kvöld skrifaði Auður Lilja Arnþórsdóttir, félagsforingi, undir samning um innleiðingu á dagskránni hjá Fossbúum.

Leikir, ævintýri, kvöldvökur, varðeldar og útilegur verða ekki síður mikilvægir þættir í skátastarfi framtíðarinnar eins og þeir hafa verið hingað til, en nýja sýnin mun skapa sterkari meðvitund um gildi og markmið, sem og að efla þátttöku skátanna sjálfra, styrkja áætlanir og framþróun.

Annað sem gerir komandi starfsár sérstaklega skemmtilegt er undirbúningur að 100 ára afmælislandsmóti sem haldið verður á Úlfljótsvatni í júlí á næsta ári.

Skráning í starf vetrarins á Selfossi verður í skátaheimili Fossbúa á lóð Sandvíkurskóla, þriðjudaginn 30. ágúst kl. 20.

Fossbúar eru líka á Facebook

Fyrri greinGuðmundur í U21 hópnum
Næsta greinÁnægja með nýtt veiðihús