Spennandi prófkjör í Rangárþingi ytra

Sjálfstæðismenn í Rangárþingi ytra ganga til prófkjörs í dag fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Tíu frambjóðendur eru í framboði.

Nokkur spenna er í loftinu en tveir frambjóðendur sækjast eftir 1. sæti, Þorgils Torfi Jónsson, oddviti og Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, bæjarstjóri í Grundarfirði og fyrrverandi sveitarstjóri Rangárþings ytra.

Kjörfundi lýkur kl. 18 og má búast við að úrslit verði birt uppúr kl. 20. Valtýr Valtýsson, formaður kjörstjórnar, sagði í samtali við sunnlenska.is að þátttaka í prófkjörinu hafi verið ágæt framan af degi og stefndi í góða þátttöku. Þegar utankjörfundi lauk í gær höfðu borist á bilinu 50-60 utankjörfundaratkvæði.