Spennandi og mjög vel unnin vinningstillaga

Mynd: Arkþing-Nordic og Efla

Arkþing-Nordic og Efla áttu 1. verðlaunatillögu í opinni hugmyndasamkeppni um enduruppbyggingu Heilsustofnunar HNLFÍ og framtíðarskipulag á landi NLFÍ í Hveragerði.

Það var Náttúrulækningafélag Íslands í samvinnu við Arkitektafélag Íslands sem efndi til samkeppninnar og bárust 11 tillögur í hana. Niðurstöður voru kynntar í síðustu viku.

Vinningstillagan hlaut 4,5 milljónir króna í verðlaun en tvær aðrar tillögur voru verðlaunaðar og tvær til viðbótar fengu viðurkenningu vegna innkaupa og athyglisverðrar tillögu. Alls var verðlaunaféð 10 milljónir króna.

Að vinningstillögunni standa Elías Beck Sigurþórsson, arkitektanemi, Helgi Mar Hallgrímsson, arkitekt, Hjalti Brynjarsson, arkitekt, Thomas Larsen, landslagsarkitekt, Daði Baldur Ottósson samgönguverkfræðingur, Guðni Rúnar Jónasson, umhverfisskipulagsfræðingur, Heimir Hjartarson, vélaverkfræðingur, Jóhanna Helgadóttir, skipulagsfræðingur og arkitekt, Nína Gall Jörgensen, byggingarverkfræðingur .

Í greinargerð dómnefndar segir að vinningstillagan sé spennandi og mjög vel unnin.

„Lögð er sterk áhersla á umhverfið og norður-suður ás, sem byggingarmassinn liggur að, er mótaður eftir bökkum Varmár. Göngustígar og upplifun af umhverfi Varmár er vel útfærð sem hluti af meðferð dvalargesta en getur einnig þjónað bæjarbúum án þess að trufla starfsemi Heilsustofnunar og heilsudvalarstaðar. […] Aðalinngangurinn er vel heppnaður með góðar tengingar bæði við meðferðarkjarna, sundlaug og heilsulind og beint útsýni að Varmá og meðferðargörðum setur strax rétta tóninn. Tveggja hæða byggingarnar falla vel að umhverfinu jafnframt því að þétta byggðina og stytta vegalengdir,“ segir í greinargerðinni þar sem því er bætt við að meðferðarkjarninn sé samofinn Heilsustofnun á aðlaðandi hátt þótt ýmislegt í innra skipulagi hans mætti leysa betur. 

„Áhugavert og aðlaðandi laugasvæði tengist heilsulind. Gistirými eru á jarð- og efri hæð og má ætla að sveigjanleg notkun þeirra á milli Heilsustofnunar og heilsudvalarstaðar náist með tengingu á efri hæð. Skipulag íbúðarbyggðar á suðurhluta svæðisins er einfalt og fellur vel að aðliggjandi byggð við Lækjarbrún. Skipulag íbúðarbyggðar, sem tengist Reykjamörk, fellur einnig ágætlega að aðliggjandi íbúðarbyggð,“ segir ennfremur í greinargerðinni.

Hér má skoða tillögurnar og dómnefndarálit

Aðstandendur vinningstillögunnar. Ljósmynd/HNLFÍ
Fyrri greinTónleikar í Sundhöll Selfoss
Næsta greinHækkandi rafleiðni í Múlakvísl