Á dögunum var auglýst eftir frumkvöðlum á Suðurlandi til þess að taka þátt í viðskiptahraðli sem stýrt er af Háskólafélagi Suðurlands í samstarfi við SASS og Orkídeu, og styrktur af Lóu nýsköpunarsjóði landbyggðarinnar og Sóknaráætlun Suðurlands.
„Þessi hraðall er eitt af mörgum frumkvöðlaverkefnum sem eru að fara af stað hjá okkur á mjög spennandi samstarfsvettvangi hér á Suðurlandi sem við ætlum að kynna betur síðar,“ segir Ingunn Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Háskólafélagsins. Það má kannski segja að þessi hraðall sé smá þjófstart en fleiri verkefni eru í farvatninu sem Ingunn segist muni upplýsa um fljótlega.
Viðskiptahraðallinn er hugsaður sem átta vikna fræðslu- og upplifunar viðburður sem er sérhannaður með þarfir teymanna sem taka þátt í huga. Þar fá þátttakendur tækifæri til þess að efla sig og sínar hugmyndir undir handleiðslu reyndra þjálfara og mentora. Hraðlinum verður stýrt af Svövu Björk Ólafsdóttur stofnanda RATA en hún hefur jafnframt haldið utan um viðskiptahraðla á vegum Norðanáttar sem hafa hlotið mikið lof þátttakenda.
Lögð áhersla á að fá inn verkefni sem tengjast orku, mat og líftækni, ferðaþjónustu og skapandi greinum og er hraðallinn er ætlaður frumkvöðlum, nýjum fyrirtækjum og nýsköpunarverkefnum innan rótgróinna fyrirtækja á Suðurlandi sem eru komin af hugmyndastigi og vilja nýta Sóknarfæri í nýsköpun til að komast lengra með sín verkefni. Stefnt er að því að taka inn 8-10 teymi og mun hraðallinn fara fram 23. janúar til 16. mars nk. Gert er ráð fyrir vikulegum fræðslufundum sem fara fram á netinu en jafnframt munu teymin hittast á þremur stað-vinnustofum, sem verða skipulagðar þvert yfir Suðurlandið, ásamt því að koma á lokaviðburð hraðalsins.
„Þetta er alveg vinna fyrir teymin en ávinningurinn er algjörlega þess virði,“ segir Ingunn að lokum.
Umsóknarfrestur í hraðalinn er til og með 12. desember og eru áhugasamir hvattir til að skrá sig hér.