„Spennan fyrir umbótunum leyndi sér ekki“

Gleði og eftirvænting ríkti síðastliðinn laugardag á ljósleiðarahátíð í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Þar var nýju ljósleiðarakerfi í sveitarfélaginu fagnað.

„Það var sama við hvern var talað, spennan fyrir umbótunum leyndi sér ekki. Það lýsir miklum metnaði hjá sveitarfélaginu að koma því til leiðar að lagður hefur verið ljósleiðari á hvert heimili og veita íbúum þannig aðgang að stafrænni sjónvarpsþjónustu og öflugra neti en sést hefur á svæðinu og þótt víðar væri leitað,“ sagði Sigurður Svansson, viðskiptastjóri endursölusamstarfs hjá Símanum, í samtali við sunnlenska.is.

„Mér finnst aðdáunarvert að sjá sveitarfélag leggja svona mikla áherslu á fjarskipti, enda bæta þau búsetuskilyrðin verulega og gera sveitarfélagið eftirsóknarverðara til búsetu.“

Að sögn Sigurðar verðu endabúnaður Símans tengdur við ljósleiðarann á næstu fjórum til átta vikum. Þá geta íbúar valið sér það fjarskiptafyrirtæki sem þeir kjósa og meðal annars fengið Sjónvarp Símans.

„Nú bíðum við eftir rétta búnaðinum til landsins svo veita megi þjónustu Símans um ljósleiðarann. Vonandi fáum við hann sem fyrst, því við hlökkum til að sjá hvernig íbúum líkar við þjónustu Símans á svo öflugu neti og í háskerpu,“ sagði Sigurður ennfremur.

Fyrri greinFrumsýning á Selfossi í kvöld
Næsta greinSauð mikið magn af landa í potti á eldavél