Sparkaði í höfuð lögreglumanns

Rétt fyrir klukkan tvö aðfaranótt sunnudags var óskað eftir skjótri aðstoð lögreglu vegna átaka tveggja manna á heimili í Hveragerði.

Þegar lögreglumenn komu á staðinn voru þar tveir ölvaðir menn í átökum.

Lögreglumenn handtóku annan manninn en á meðan á handtökunni stóð sparkaði maðurinn í höfuð lögreglumanns. Það kom ekki í veg fyrir að lögreglumönnum tækist að yfirbuga manninn sem sýndi mikinn mótþróa og ofsafengna framkomu.

Maðurinn var fluttur á lögreglustöðina á Selfossi þar sem hann var látinn sofa úr sér. Hann var síðan yfirheyrður þegar af honum var runnið.

Lögreglumaðurinn fór á heilsugæslustöðina á Selfossi þar sem læknir kannaði áverka hans sem reyndust ekki alvarlegir.

Fyrri greinSjaldgæfur flækingur í Víkurfjöru
Næsta greinRúðubrjótur í annarlegu ástandi