Sparkaði í lögreglubíl

Nýja árið fór vel af stað hjá lögreglunni á Suðurlandi og engin slys hafa verið tilkynnt. Öflugt eftirlit var við skemmtistaði og á vegum úti.

Karlmaður var handtekinn á nýársnótt við skemmtistaðinn Frón á Selfossi en hann hafði ráðist að fólki þar. Við handtöku hafði hann í hótunum við lögreglumenn og sparkaði í lögreglubifreið sem skemmdist lítilkega.

Maðurinn var vistaður í fangaklefa og yfirheyrður síðar um daginn en hann bar við minnisleysi vegna áfengisdrykkju.

Lögregla var í nokkur skipti kölluð til vegna ósættis inni á heimilum og á eða við skemmtistaði á svæði lögreglunnar á Suðurlandi, t.d. á Selfossi, Stokkseyri, í Grímsnesi, Ölfusi og á Höfn.

Á nýársnótt voru lögreglumenn á öllum svæðum með öflugt eftirlit við skemmtistaði og á vegum. Einn var kærður fyrir ölvunarakstur á Selfossi og einn fyrir fíkniefnaakstur í Hveragerði.