Sparisjóðurinn lokar í Hveragerði

Afgreiðslu Sparisjóðsins á Suðurlandi í Sunnumörk í Hveragerði var lokað nú um mánaðarmótin.

Sparisjóðurinn á Suðurlandi er útibú Sparisjóðs Vestmannaeyja og hefur afgreiðslan í Hveragerði verið opin síðan í desember 2004.

Pétur Hjaltason, útibússtjóri á Selfossi, sagði í samtali við sunnlenska.is að frá opnun útibúsins á sínum tíma hafi Sparisjóðurinn sinnt ýmsum verkefnum í Hveragerði fyrir Orkuveitu Reykjavíkur. OR sagði þeim samningi upp um síðustu áramót og eftir það hafi ekki verið grundvöllur fyrir rekstri afgreiðslunnar lengur.

Tveir starfsmenn voru í fullu starfi í afgreiðslunni í Hveragerði. Öðrum þeirra var sagt upp og hinum boðið hlutastarf í útibúinu á Selfossi, sem hann afþakkaði.