Sett hefur verið upp svokölluð sparifataslá í Bókasafni Árborgar á Selfossi. Tilgangur sláarinnar er að gefa sparifötum framhaldslíf og minnka þannig kolefnissporið í desember þegar neysla landsmanna nær hámarki.
„Þetta er stolin hugmynd frá Borgarbókasafninu í Reykjavík. Ég sá að þau voru að gera þetta þar og hugsaði að það væri sniðugt að gera þetta líka hér,“ segir Hera Fjölnisdóttir, verkefnastjóri miðlunar og menningar hjá Sveitarfélaginu Árborg. Hera hefur umsjón með sparifataslánni ásamt Rakel Sif Ragnarsdóttur, bókaverði á Bókasafni Árborgar.
„Svo vorum við að setja upp tré fyrir Sjóðinn góða og okkur fannst tilvalið að hafa þetta saman. Þess má geta að síðasti séns til að koma til okkar pakka er 17. desember og hvetjum við alla sem hafa tök á að setja pakka undir tréð þar sem neyðin er mikil í ár.“
Gefa, taka eða bítta
Óhætt er að segja að sparifatasláin hafi heldur betur slegið í gegn síðan hún fór upp um síðustu mánaðamót.
„Viðtökurnar hafa verið mjög góðar. Fólk er mjög duglegt að gefa og fólk er velkomið að koma og fá föt,“ segir Hera og bætir því við að fólk geti komið með föt á slána, tekið af slánni eða bíttað. Bara eins og fólk vill hafa það.
Sparifatasláin er ætluð fyrir allan aldur en eins og er er mest af fötum fyrir konur og ung börn. Hera hvetur þá sem geta að koma með spariföt fyrir karlmenn og unga drengi. „Fötin sem verða eftir á fataslánni fara með pökkunum til Sjóðsins góða, þannig að þegar fólk kemur að sækja pakkana þá getur það líka farið yfir fötin sem eftir eru og tekið það sem hentar.“
Miðað við viðtökurnar sem sparifatasláin hefur fengið þá gerir Hera ráð fyrir að þetta verði árlegur viðburður.

Góð leið til að gefa fötum framhaldslíf
„Það er náttúrulega offramboð af fötum. Spariföt er eitthvað sem maður notar ekki oft og því um að gera að koma með þau föt sem fólk ætlar ekki að nota meira eða er vaxið upp úr. Við þurfum að gera okkar besta að endurnýta því að það eru einhver tíu tonn af fötum sem Íslendingar losa sig við daglega. Það eru yfirleitt sparifötin sem sitja lengst inn í skáp, því fólk heldur að það noti þau einhvern tímann aftur en gerir það svo ekki.“
„Föt sem farið er með í grenndargáma eru bara urðuð, sem er hryllilegt. Þau fá ekki framhaldslíf eins og fötin á sparifataslánni gera til dæmis.“
„Ég hvet fólk til að láta orðið berast, sérstaklega ef það er einhver sem talar ekki íslensku og er ekki að fylgjast með íslenskum fréttamiðlum, að láta nýbúa vita af sparifataslánni. Það er rosalega margt í boði á bókasafninu fyrir nýja Íslendinga þannig það má endilega beina fólki hingað,“ segir Hera að lokum.
