Sparar með því að aka sorpinu til Reykjavíkur

Með því að mæta snemma á morgnana í Sorpu í Reykjavík sparar Tómas Þórir Jónsson Hrunamannahreppi nokkra fjármuni vegna förgunar sorps úr hreppnum.

Hann velur að aka með sorpið í flestum tilfellum til Reykjavíkur í stað þess að fara með það í flokkunarstöð Sorpstöðvar Suðurlands í Melamýri í Sandvíkurhreppi, skammt sunnan við Selfoss.

„Í Reykjavík fæ ég að losa bílinn án þess að veður hafi áhrif,“ segir Tómas Þórir sem fer alla jafna um þrjár ferðir í mánuði með hefðbundið sorp úr hreppnum, upp í tíu tonn í hverri ferð.

Með samningi Sorpstöðvar Suðurlands, sem Hrunamannahreppur er aðili að ásamt tíu öðrum sveitarfélögum á Suðurlandi, er gefinn sérstakur afsláttur ef sorpúrgangi er skilað til Sorpu fyrir kl. 9:30 á morgnana. Þetta nýtir Tómas Þórir sér og fer af stað akandi á ruslabílnum uppúr hálf sex á morgnana af stað til höfuðborgarinnar.

Þrátt fyrir að þurfa að aka um 100 kílómetrum lengri leið með sorpið er sparnaðurinn nærri 40 þúsund krónur í hverri ferð miðað við 9,5 tonn í ferð.

„Þegar afslátturinn er tekinn með í reikninginn er þetta betra upp á skipulag að gera. Það hefur komið oft fyrir að ekki er hægt að losa sorpið í umhleðslustöðinni á Selfossi út af roki eða öðrum ástæðum og erfitt að stóla á slíkt, raunar óásættanlegt,“ segir hann. Þá sé fljótlegri afgreiðslu að fá hjá Sorpu þar sem hann getur ekið beint inn á svæðið, losað og fengið útprentun yfir vigtað sorp með reikningi um leið og hann fer útaf svæðinu.

„Þetta sparar manni bæði tíma og fyrirhöfn,“ segir Tómas Þórir sem hefur sinnt sorpmálum í Hrunamannahreppi í að verða 22 ár.

Fyrri greinVeltu fólksbíl á Kjalvegi
Næsta greinFjóla Signý og Guðrún Heiða afreksmenn ársins