Spáir meira en 20 stiga frosti

Mikið frost var á landinu í nótt og kaldast í byggð var á Þingvöllum eða -15,2°C.

Þetta kemur fram í veðurbloggi Einar Sveinbjörnssonar veðurfræðings. Á hálendinu fékkst lægsta talan ofan úr Veiðivatnahrauni eða -16,4°C.

Á bloggi Einars kemur fram að yfir miðju landinu sé staðbundinn miðja hæðar með þrýsting um og yfir 1040 hPa. Hún er hluti víðáttumikils háþrýstings sem nú ríkir á stóru svæði umhverfis landið. Einar segir að horfur séu á því að frostið herði heldur, einkum í innsveitum og fari staðbundið yfir 20 stig í kvöld og nótt.