Sóttu strandaglóp á eyju í Þjórsá

Þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðaði í dag svifvængjaflugmann sem lenti á eyju í miðri Þjórsá. Sigmaður hífði manninn upp og gekk læknir um borð úr skugga um að í lagi væri með hann.

Því næst var maðurinn settur út við Búrfell þar sem hann hafði lagt upp í flugið.

Að sögn Landhelgisgæslunnar var þyrlan skammt frá í venjubundnu æfingaflugi þegar henni barst beint beiðni um aðstoð vegna svifvængjaflugmannsins. „Af því þeir voru í nágrenninu þá fóru þeir á staðinn, sóttu fyrst tvo menn sem voru kunnugir og í framhaldinu var farið að eyjunni, maðurinn sóttur og hann síðan settur í land.“

Gæslan hefur ekki fengið lokaskýrslu um málið en útkallið tók skamman tíma, alls liðu 16 mínútur frá því þyrlunni barst beiðnin og þar til lent var með manninn.

mbl.is greindi frá þessu

Fyrri greinIngó tekur við brekkusöngnum
Næsta greinJónsmessuhátíð á Eyrarbakka á laugardag