Sóttu slasaðan vélsleðamann

Vélsleðamaðurinn sem Flugbjörgunarsveitin á Hellu sótti inn að Fremri-Sigöldu við Hrauneyjalón í morgun reyndist ekki alvarlega slasaður.

Fimm björgunarsveitarmenn á tveimur bílum voru sendir af stað til björgunar og sjúkrabíll var síðan sendur til móts við hópinn og mun hann flytja manninn á heilsugæsluna á Hellu til aðhlynningar.

Tildrög slyssins voru þau að snjór hrundi skyndilega undan sleðanum, og myndaðist þannig gjóta undir honum sem maðurinn féll ofaní. Hann kenndi sér eymsla í baki.