Sóttu slasaðan ferðamann

Björgunarsveitir úr Öræfum og frá Höfn voru kallaðar út ásamt sjúkrabíl frá Kirkjubæjarklaustri um klukkan sjö í kvöld þegar tilkynning barst um ferðamann sem slasaðist í Skaftafelli.

Erlendir ferðamenn, karl og kona, voru á leið að Sjónarnípu sem er um 3 km frá þjónustumiðstöðinni. Þau komust þó ekki alla leið því hann slasaðist á fæti eftir hálfs annars kílómetra göngu. Konan hljóp til baka og bað um hjálp.

Bera þurfti manninn niður að vegi um erfitt svæði á þröngum stíg í brekkum og skógi. Því var ákveðið að kalla til þyrlu Landhelgisgæslunnar sem sótti manninn og flutti hann til Reykjavíkur.

Í upphaflegri tilkynningu frá Landsbjörgu var talað um að kona hefði slasast, en þar var um misskilning að ræða.

UPPFÆRT 30/8 KL. 23:15