Sótt um að byggja útflutningshöfn á Mýrdalssandi

Alviðruhamrar þar sem þeir standa upp úr fjörusandinum á Mýrdalssandi. Mynd úr skipulagslýsingu verkefnisins.

EP Power Minerals Iceland ehf. hefur sótt um að byggja útflutningshöfn við Alviðruhamra í Skaftárhreppi.

Á síðasta fundi sínum tók sveitarstjórn Skaftárhrepps til umfjöllunar bréf frá Eflu fyrir hönd EP Power Minerals Iceland, ásamt skipulagslýsingu vegna hafnarframkvæmda við Alviðruhamra, sem eru á austanverðum Mýrdalssandi, sunnan við Álftaver.

Gera þarf breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna þessa þar sem landbúnaðarsvæði verður breytt í hafnarsvæði, með heimild til hafnargerðar, varnargarða og bygginga sem tengjast notkun hafnarinnar og verkefninu.

Gert er ráð fyrir langri og mjórri rörabryggju sem nær 2 kílómetra út í sjó og um 200 metra löngum viðlegukanti við enda hennar.

Sveitarstjórn vísaði málinu til skipulags- og umhverfisráðs Skaftárhrepps til umfjöllunar og afgreiðslu.

Fyrri greinFékk blessun frá Frostrós fyrir nýjasta lagið
Næsta greinFriður í hjörtum og virðing í orðum