SOS mátti semja við Sorpu

Sorpstöð Suðurlands var heimilt að ganga til samninga við Sorpu um móttöku efnis til urðunar og endurvinnslu.

Þetta er mat innanríkisráðuneytis í úrskurði á stjórnsýslukæru sem ráðuneytinu barst frá Íslenska gámafélaginu, sem jafnframt krafðist þess að samningur fyrrgreindra félaga yrði dæmdur ólöglegur.

Íslenska gámafélagið hélt því fram að samningur Sorpu og Sorpstöðvar Suðurlands væri í raun einokunarsamningur sem væri til þess fallinn að koma í veg fyrir samkeppni og valdi Íslenska gámafélaginu verulegu tjóni.

Hafi samningurinn það í för með sér að grundvöllur Íslenska gámafélagsins fyrir byggingu og rekstri móttökustöðvar í Hrísmýri á Selfossi sé brostinn að mati ÍG. Þá svipti samkomulag Sorpu og Sorpstöðvar Suðurlands ÍG möguleikanum á að innleiða lausn hvað varðar flokkun úrgangs í þeim sveitarfélögum á Suðurlandi sem eru aðilar að Sorpstöð Suðurlands enda skuldbindi samkomulagið umrædd sveitarfélög.

Ráðuneytið telur þann hluta kærunnar er varðar umkvörtun Íslenska gámafélagsins um að samningur sé einokunarsamningur sem sé byggður á misbeitingu valds heyri undir Samkeppniseftirlitið og fjallar því ekki um þann hluta málsins.

Ráðuneytið féllst ekki á rök Íslenska gámafélagsins að Sorpu og Sorpstöð Suðurlands væri óheimilt að gera samning sín á milli.

Í raun hafi Sorpstöð Suðurlands orðið að finna leiðir til förgunar úrgangs til að geta sinnt skyldum sínum og sú leið sem valin var metin hagkvæm og árangursrík að mati Sorpstöðvarinnar og nauðsynlegt fyrir byggðasamlagið að tryggja sér aðgang að móttökustöð og urðunarsvæði svo fljótt sem unnt var, þar sem urðun var hætt í Kirkjuferjuhjáleigu þann 1. desember 2009.

Samkvæmt heimildum Sunnlenska hefur sá hluti málsins er lýtur að samkeppnissjónarmiðum ekki enn verið afgreiddur af hálfu Samkeppnisstofnunar.

Fyrri greinÁrborg fékk ekki færi
Næsta greinBiskup kaupir fjórhjól