Sorpsstöð Rangárvallasýslu fær áminningu

Umhverfisstofnun hefur áminnt Sorpsstöð Rangárvallasýslu og krafist úrbóta vegna fráviks sem kom í ljós við eftirlit. Árið 2010 voru urðuð 1.630 tonn af sláturúrgangi á Strönd en þar er einungis heimilt að urða 800 tonn af lífrænum úrgangi á ári.

Í fréttatilkynningu frá Umhverfisstofnun segir að magn urðaðs sláturúrgangs á Strönd hafi verið 1630 tonn árið 2010 en einungis er heimild til að urða 800 tonn af formeðhöndluðum lífrænum úrgangi á ári og það skilyrði sett fyrir urðuninni að Sorpstöð Rangárvallasýslu sýni fram á að endurnýting sé ekki möguleg og aðrar förgunarleiðir ekki færar.

Í sjónarmiðum rekstraraðila kemur fram að sorpstöðin hyggst meta umhverfisáhrif af breyttri starfsemi og aukinni urðun og í framhaldi sækja um nýtt starfsleyfi, en Umhverfisstofnun voru tilkynnt þessi áform í bréfi 14. desember sl. Umhverfisstofnun vill ítreka að heimild til að urða 800 tonn af formeðhöndluðum lífrænum úrgangi á ári er háð því skilyrði að Sorpstöð Rangárvallasýslu sýni fram á að endurnýting eða aðrar förgunarleiðir eru ekki færar, en greinargerð um slíkt hefur enn ekki borist þó svo að óskað hafi verið eftir henni í bréfi dagsettu 6. desember sl.

Umhverfisstofnun veitti Sorpstöð Rangárvallasýslu frest til 13. apríl til að skila inn greinargerð um möguleika á endurnýtingu eða öðrum förgunarleiðum með það að markmiði að draga úr magni urðaðs úrgangs að Strönd. Stofnuninni barst áætlun um úrbætur 13. apríl sem hún hefur til skoðunar. Sinni Sorpstöð Rangárvallasýslu ekki tilmælum Umhverfisstofnunar innan tilskilins frests er stofnuninni heimilt að ákveða fyrirtækinu dagsektir allt að upphæð 500.000 krónur á dag þar til úr er bætt.