Sorphirðukostnaður hefur lækkað um 25%

Bláskógabyggð hefur náð að skera niður í sorphirðukostnaði um 25% að raunvirði með markvissum aðgerðum frá ársbyrjun 2006.

Fram að því hafði kostnaðurinn farið stigvaxandi. Fjölþættara sorphirðugjald, takmörkun aðgengis að sorphirðustöðvum og flokkun úrgangs samhliða nákvæmu eftirliti eru helstu ástæður þessa góða árangurs segir Halldór Karl Hermannsson, fráfarandi sviðsstjóri framkvæmda- og þjónustusviðs.

„Í dag skila gámastöðvarnar af sér 54% sorps innan sveitarfélagsins, gámar frístundabústaða 15%, heimilishirða 23% og sérstakt hreinsunarátak skilar 8%,“ segir Halldór Karl. Meðalskil á sorpi í sveitarfélaginu er um 40 kíló á mánuði. Slíkt kostar heimilið um 1.600 krónur hvern mánuð.

En betur má ef duga skal segir Halldór Karl. „Ég hef orðið fyrir vonbrigðum með hve lítið af flokkuðum úrgangi skilar sér frá frístundabyggðum“, segir Halldór Karl og bendir á því til staðfestingar að frá meðalheimili í sveitarfélaginu komi meira en 17% úrgangs í formi pappírs en flokkaður pappír frá frístundabústöðum sé undir 1%.

„Sóknarfæri til frekari sparnaðar eru helst í fækkun gámastöðva,“ segir hann og bendir á að einstaklingar fari að jafnaði tvisvar sinnum á sorphirðustöð á ári en í Noregi sé miðað við að akstur á sorphirðustöð geti tekið allt að tvær klukkustundir.

Fyrri greinGóð aðsókn í Slakka
Næsta greinHSu greiðir kjarabætur úr eigin vasa