Sonus undirbýr rafbílarallý – „Fékk gæsahúð af spenningi“

Akstursíþróttasamband Íslands hefur gengið frá samningum við Alþjóða aksturssambandið þess efnis að ein umferð í alþjóðlegu meistaramóti rafbíla FIA í nákvæmnisakstri, oft kallað eRally verði haldið á Íslandi í september á þessu ári.

Það er sannarlega í mörg horn að líta þegar kemur að viðburði sem þessum og hefur AKÍS gengið frá samningum við viðburðafyrirtækið Sonus Viðburði á Selfossi um að koma að undirbúningnum.

„Ég var strax mjög spenntur fyrir verkefninu þegar þeir AKÍS félagar höfðu samband og þegar þeir útskýrðu þetta betur fékk ég gæsahúð af spenningi,” segir Bessi Theodórsson eigandi Sonus Viðburða. „Það sem ég sá strax í þessu er að hér hefur Ísland frábært tækifæri til að halda stöðu sinni og jafnvel styrkja hana þegar kemur að því að vera leiðandi land í orkuskiptum í samgöngum. Það segir sig sjálft að keppni sem þessi á að vera hér á landi, við með alla okkar hreinu, ódýru og endurnýjanlegu orku. Ég var í rauninni örlítið hissa á því að þessi keppni hafi ekki verið haldin hér áður. En núna er þetta að verða að veruleika og það er mjög jákvætt,“ segir Bessi en hann og hans fyrirtæki mun koma að utanumhaldi á viðburðinum í heild og segir hann það sannarlega verðugt verkefni.

„Ég held hreinlega að þetta sé með stærri viðburðum sem við höfum komið að. AKÍS menn munu sjá um rallið sjálft enda hafa þeir áralanga reynslu af slíku keppnishaldi. Sonus mun, eins og áður segir, sjá um undirbúning að öðru leiti. Það gefur auga leið að þessum fjölda keppenda, fjölmiðlamanna, áhorfenda og aðstandenda þarf að sinna vel. Sem og kynning á verkefninu. Þetta verður viðburður sem mun vekja athygli á heimsvísu.”

Þessi rallykeppni er ekki eins og þær sem Íslendingar hafa vanist. eRally byggir á nákvæmnisakstri fyrirfram ákveðna leið, ávallt innan hámarkshraða á óbreyttum bifreiðum. Á leiðinni eru mælistaðir þar sem bíllinn þarf að vera staddur á nákvæmlega réttri sekúndu annars missa keppendur stig.

Samhliða keppninni stendur til að halda ráðstefnu um hvert stefnir í orkuskiptum í samgöngum hérlendis, hver eru hagræn áhrif þeirra skipta á breiðum grunni, hver eru umhverfisáhrifin bæði jákvæð og neikvæð.

Fyrri greinNýir skyrtankar hífðir inn í mjólkurbúið
Næsta greinVormóti frestað vegna veðurs