Sólvellir fá framkvæmdastyrk

Sólvellir á Eyrarbakka. sunnlenska.is/Björn Ingi Bjarnason

Sólvellir, heimili aldraðra á Eyrarbakka fékk samtals rúmar 3,4 milljónir króna til tveggja verkefna þegar úthlutað var úr Framkvæmdasjóði aldraðra í vikunni.

Sólvellir fá rúmar þrjár milljónir til þess að breyta þremur rýmum í tvö rými með salerni og rúmar 400 þúsund krónur til þess að endurbæta neyðar- og leiðarlýsingu í húsinu.

Alls úthlutaði heilbrigðisráðherra 400 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði aldraðra í þetta sinn og var úthlutunin í samræmi við tillögu stjórnar sjóðsins.

Rúmar 307,7 milljónir króna fara í verkefni á höfuðborgarsvæðinu og fer stærsta fjárhæðin, rúmar 179,9 milljónir króna, til viðbyggingar eldhúss Hrafnistu og endurnýjun búnaðar þar, en þar verður framleiddur matur fyrir íbúa allra Hrafnistuheimilanna. 

Tæpar 70 milljónir króna fara í framkvæmdir sem snúa að því að færa aðbúnað íbúa á hjúkrunarheimilum í nútímalegt horf með breytingu á fjölbýlum í einbýli með snyrtingu. 

Fyrri greinÁrborg skoraði þrjú í seinni hálfleik
Næsta greinSveitarstjórnin vill svifryksmæli við Skaftá