Sólveig farin til Jerúsalem

Sólveig Þorvaldsdóttir, verkfræðingur í Sandvíkurhreppi, hefur verið send til starfa á vegum íslensku friðargæslunnar til Jerúsalem.

Sólveig mun vinna innan vébanda OCHA, Samræmingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum, að gerð áhættumats, neyðar- og viðbragðsáætlana fyrir Palestínu í samvinnu við palestínsku heimastjórnina.

Sólveig, sem býr í Tjarnabyggð í Sandvíkurhreppi, hefur víðtæka reynslu af gerð almannavarnaáætlana og björgunarstörfum. Hún var forstjóri Almannavarna ríkisins frá 1996-2003 en rekur nú alþjóðlegt ráðgjafafyrirtæki sem sérhæfir sig í gerð viðbragðsáætlana og forvörnum gegn tjóni sem hlotist getur af náttúruhamförum.