Sólstöðuhátíð á Þingvöllum

Sumarsólstöðuhátíð er á Þingvöllum í dag en hátíðin er hluti af alþjóðlegri friðarsamkomu sem haldin er á Laugarvatni.

Friðarsamkoman, Ayni Summit 2011, hófst sl. laugardag og stendur út þessa viku. Samkoman er árlegur viðburður meistara og áhugafólks um viskufræði Andesfjalla og tekur fjöldi þátttakenda víðs vegar að úr heiminum þátt í henni.

Heiðursgestir samkomunnar eru hjón af Q’ero ætt indíána í Perú. Þau lifa í nánu sambandi við Móður Jörð í hlíðum Andesfjalla en lífssýn Q’ero fólksins byggir á 16.000 ára visku um Ayni, eða helga gagnkvæmni og virðingu, að gefa og að þiggja.

Yfirskrift samkomunnar að þessu sinni er umbreytingarkraftur friðar. Gestgjafi samkomunnar, Dorthe Steenberg, bjó til margra ára á Íslandi og valdi samkomunni stað með krafta, hreinleika og töfra Íslands fyrir augum.
„Ísland er musteri af náttúrunnar hendi og því stórkostlegt að fá að sameinast um frið hér á landi og vekja upp AYNI í hjörtum fólks,“ segir Dorthe.

Samkoman fer að mestu fram á Hótel Eddu Laugarvatni en meðal annarra dagskrárliða er sumarsólstöðuhátíðin á Þingvöllum í dag og fögnuður á Jónsmessudag 24. júní við friðarsúluna í Viðey.

Allar upplýsingar að finna á heimasíðunni www.aynisummit.com

Fyrri greinÖskulag veldur óvissu um heyskap
Næsta greinMullersæfingar á gönguför