Sólheimum boðin óskert framlög

Sveitarfélagið Árborg segir að Sólheimum ses. hafi verið boðið að gera þjónustusamning vegna ársins 2011 á grundvelli sömu fjárframlaga og fyrir árið 2010, 275 milljóna króna.

Fulltrúaráð Sólheima sendi í gær frá sér tilkynningu og sagði, að samningaviðræður við Árborg um nýjan þjónustusamning hefðu staðið yfir í rúma 3 mánuði án árangurs. Mikil óvissa sé um með hvaða hætti rekstur Sólheima verður tryggður. Þessi staða sé algjörlega óviðunandi fyrir starfsemi Sólheima.

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, sendi í dag frá sér tilkynningu þar sem segir m.a., að gert sé ráð fyrir að samningaviðræðum við Sólheima verði framhaldið eftir páska. Segir Ásta, að Sólheimum hafi verið boðið að gera samning vegna ársins 2011 á grundvelli sömu fjárframlaga og fyrir árið 2010, 275 milljóna króna. Á sama tíma þurfi flestar stofnanir ríkis og sveitarfélaga að taka á sig lækkun rekstrarframlaga á milli ára.

Tilkynning Árborgar er eftirfarandi:

Í janúar s.l. hófust formlegar samningaviðræður þjónustusvæðis um málefni fatlaðra á Suðurlandi og Sólheima ses. um áframhaldandi þjónustu Sólheima ses. við fatlaða íbúa á Sólheimum. Samningahópinn skipa tveir fulltrúar Sólheima og tveir fulltrúar Sveitarfélagsins Árborgar f.h. þjónustusvæðisins á Suðurlandi. Samkomulag var gert um að málefni samningaviðræðna yrðu ekki rædd við fjölmiðla og hefur það samkomulag verið virt af hálfu beggja aðila, allt þar til ályktun fulltrúaráðs Sólheima var send fjölmiðlum í gær.

Í tilefni af ályktuninni skal tekið fram að allt frá því að ákvörðun var tekin um flutning málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga hefur Sólheimum ses. verið boðið að gera samning vegna ársins 2011 á grundvelli sömu fjárframlaga og fyrir árið 2010, 275 millj. kr. Bent er á að á sama tíma þurfa flestar stofnanir ríkis og sveitarfélaga að taka á sig lækkun rekstrarframlaga á milli ára.

Jafnframt því að leitast hefur verið við að ná samningi fyrir árið 2011 hefur verið unnið að gerð samnings vegna áranna 2012 til 2014. Af hálfu þjónustusvæðisins hefur ítrekað verið boðið að gerður yrði samningur til lengri tíma en eins mánaðar í senn.

Legið hefur fyrir frá því að ákvörðun var tekin um flutning málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga að greiðslur skv. nýju mati á þjónustuþörf fatlaðra einstaklinga, svonefndu SIS mati, munu hefjast um næstu áramót, og mun væntanlegur samningur fyrir árin 2012 til 2014 taka mið af því.

Af hálfu þjónustusvæðis um málefni fatlaðra á Suðurlandi er gert ráð fyrir að
samningaviðræðum við Sólheima verði framhaldið eftir páska.

Fyrri greinLars og Ragnheiður heiðruð
Næsta greinTafir á opnun gufubaðsins