Sólheimar unnu mál gegn ríkinu

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á kröfur Sólheima ses., um að viðurkennt yrði að ríkið hafi vanefnt skuldbindingar sínar samkvæmt þjónustusamningi með því að skerða fjárframlag til Sólheima um 4% í fjárlögum ársins 2009, eða um 11 milljónir króna.

Þjónustusamningur var gerður við Sólheima árið 2004 þar sem hver íbúi var metinn og fjárframlag ákvarðað út frá þeirri þjónustu sem hver og einn þurfti. Þá voru fjörutíu íbúar á Sólheimum.

Gerður var viðauki við samninginn í mars 2008 þar sem tilgreint var hvaða þjónustu veita skyldi og hvaða endurgjald kæmi fyrir það og gilti sá til 31. desember 2010.

Hins vegar var það við fjárlagagerðina 2009 að fjárframlög til stofnunarinnar voru skert. Til þingsins kom fram tillaga um óbreytt fjárframlög en í nefndarstarfi þingsins var ákveðið að skera fjárveitingarnar niður um 4% eða 11 milljónir króna.

Þar þótti forstöðumönnum Sólheima verið brotið á stofnuninni og íbúum Sólheima þar sem áður hafði verið gefið út að hlífa ætti málefnum fatlaðra við niðurskurði sem kostur væri. Þá hafi enginn niðurskurður verið hjá annarri stofnun sem sinnir sambærilegri þjónustu.

Sólheimar kröfðust þess aðallega að skerðingin yrði dæmd ólögmæt en til vara, að viðurkennt yrði að ríkið hefði vanefnt skuldbindingar sínar.

Lögmaður ríkisins sagðist í málflutningi m.a. ekki þekkja dæmi þess að dómstólar endurskoði fjárlög Alþingis. Samkvæmt stjórnarskrá samþykki Alþingi fjárlög og sé það vald varið í stjórnarskrá. Óheimilt væri samkvæmt stjórnarskrá að verða við dómkröfum Sólheima í málinu.

Héraðsdómur segir m.a. í niðurstöðu sinni, að lækkun á fjárframlagi til Sólheima um 4% hafi ekki átt stoð í samningnum og því verið brot á greiðsluskyldu ríkisins samkvæmt honum. Féllst dómurinn því á varakröfu Sólheima.

Ríkið var jafnframt dæmt til að greiða Sólheimum 2 milljónir króna í málskostað.

mbl.is greindi frá þessu