Sólheimar stefna ríkinu

Sólheimar í Grímsnesi hafa stefnt ríkinu fyrir að skerða fjárframlög til stofnunarinnar umfram aðrar árið 2009.

Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur nú í morgun.

Guðmundur Ármann Pétursson, framkvæmdastjóri Sólheima, segir að málið snúist um það að á fjárlögum 2009 hafi Sólheimar einir þjónustuaðila í málaflokki fatlaðra, sem sinna búsetu og atvinnumálum, sem hafi fengið á sig skerðingu umfram alla aðra. Guðmundur Ármann segir að skerðingin hafi verið 4% eða 11 milljónir. Hann segir að sóst hafi verið eftir því að fá þetta mál leiðrétt en það hafi verið hundsað. Guðmundur Ármann segir að Sólheimum sé því nauðugur sá kostur að sækja málið með þessum hætti, eða fyrir dómstólum.

Á vef RÚV kveðst Guðmundur ósáttur við að málið sé komið fyrir dómstóla. Hann segir það ekki leggjast vel í sig að þurfa að vera að stefna íslenska ríkinu og sérstaklega ekki því fagráðuneyti sem Sólheimar hafi starfað undir. Hann segir að sér finnist það vera ömurleg staða sem ekki hafi verið óskað eftir enda hafi Sólheimar misserum saman reynt að leita leiða til að ná sáttum í málinu og fá lausn á því. Hins vegar hafi ekki verið hlustað á það.

Fyrri grein50 milljónir í fjárfestingar
Næsta greinMatthías sást síðast á Selfossi