Sólheimajökull heldur áfram að hopa

Nemendur Hvolsskóla við Sólheimajökul síðastliðinn mánudag. Ljósmynd/Hvolsskóli

Nemendur 7. bekkjar Hvolsskóla fóru ásamt Jóni Stefánssyni verkefnastjóra Grænfánans og fylgdarliði að Sólheimajökli í byrjun vikunnar.

Tilgangur ferðarinnar var eins og undanfarin ár, að mæla hop jökulsins en þetta var í tíunda sinn sem mælingarnar fara fram.

Að þessu sinni reyndist jökullinn hafa hopað um 11 metra frá því 2018 og lónið er enn 60 metrar að dýpt. Minna er um ísjaka á vatninu en oft áður.

Mælingar milli ára geta verið mjög mismunandi og fara að mestu leyti eftir því hve mikið hefur brotnað framan af jökulsporðinum og fallið út í lónið framan við hann. Á þessum 10 árum sem mælingar hafa staðið yfir hefur sporður Sólheimajökuls hopað að meðaltali um tæpa 40 m á ári. Núna er sporðurinn mjög sprunginn og má búast við að á næstunni muni stór stykki falla eða slitna frá honum.

Björgunarsveitin Dagrenning fylgdi hópnum að venju og sigldi með bæði nemendur og kennnara um lónið.

Að sögn Jóns Stefánssonar, kennara, gefur þetta verkefni nemendum einstaka sýn á að fylgjast með hopi jökuls af völdum loftslagsbreytinga og vekur þau til umhugsunar hvaða áhrif breytingar á jöklum hafa á náttúruna. Önnur umhverfisverkefni Hvolsskóla miða að því að átta sig á hvað veldur og hvað hægt er að gera til að hægja á eða stöðva hamfarahlýnun. Má þar nefna að allt sorp er flokkað og hluti þess nýttur á staðnum með moltugerð. vistheimtarverkefni í Landeyjum, þar sem eru tilraunareitir skólans og síðan gróðursetning trjáplantna og sáning grasfræs í hrauninu sunnan Búrfells í Landssveit.

Frá mælingunni árið 2010. Ljósmynd/Aðsend
Jökullinn hefur hopað um 390 metra á tíu árum. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinGissur gefur kost á sér
Næsta greinLeikur Þórs hrundi í lokin