Sólheimahús risið í Suður-Afríku

Samfélagið á Sólheimum í Grímsnesi hefur um nokkurra ára skeið stutt við uppbyggingu á Heimili friðarins, Ikhaya Loxolo, systurþorpi Sólheima í Suður-Afríku.

Árlega styrkja Sólheimar uppihald fimm heimilismanna og í tilefni 80 ára afmælis Sólheima, árið 2010, var ákveðið að Sólheimar styrktu byggingu nýs húss í samfélaginu. Húsið er nú tilbúið og hefur hlotið nafnið Sólheimahús og hýsir nokkra heimilismenn, auk þess sem útieldhús er áfast húsinu, en eldað er yfir opnum eldi líkt og víða tíðkast í álfunni.

Heimili friðarins er stórt sveitaheimili þar sem fatlaðir einstaklingar búa ásamt starfsfólki og sjálfboðaliðum. Heimilið er rekið af þýskum hjónum, þeim Alex og Michael, en þau leitast við að mennta og þjálfa íbúana með aðstoð sjálfboðaliða og starfsfólks úr nágrenninu. Á heimilinu fer fram ýmiskonar búskapur og ræktun.

Fjármögnun starfsins er með fjölbreyttum hætti, bæði með sölu landbúnaðarafurða svo sem grænmetis, kjúklinga, fræja og græðlinga og með sölu handverks. Með sumum íbúanna er greidd framfærsla frá Suður Afríska ríkinu en jafnframt hafa Alex og Michael þurft að treysta á stuðning utanaðkomandi aðila um fjármagn og hafa Sólheimar styrkt starfið um árabil.

Heimasíða Sólheima

Fyrri greinHeita vatnið tekið af í Þorlákshöfn
Næsta greinMeters djúpt vatn í kjallaranum