Sólborg Lilja ráðin hótelstjóri á Hellu

Sólborg Lilja Steinþórsdóttir hefur verið ráðin hótelstjóri fyrsta Stracta Hotelsins á Íslandi sem opnað verður á Hellu 15. maí næstkomandi.

Sólborg er Skaftfellingur í húð og hár, fædd og uppalin á Kirkjubæjarklaustri. Hún er gift Tryggva Þórhallssyni og samtals eiga þau sex uppkomin börn og þrjú barnabörn. Sólborg hefur starfað lengi sem hótelstjóri, nú síðast á Icelandair Hotel Reykjavík Natura (áður Hótel Loftleiðir). Starfsferill hennar hófst þó á Hótel Eddu og hefur hún starfað fyrir við hótel víða um land.

„Eigendur og forsvarsmenn Stracta Hotels á Íslandi höfðu samband við mig í byrjun árs og vildu kanna hvort ég hefði áhuga á að koma til starfa á Hellu sem hótelstjóri. Mér leist strax vel á verkefnið,“ segir Sólborg Lilja. Hún segir það skemmtilegt að taka þátt í uppbyggingarstarfi sem þessu og vera með frá byrjun. „Ég er líka landsbyggðarkona í hjarta mínu og fyrir þær sakir finnst mér þetta vera kjörið tækifæri sem ég get ekki látið framhjá mér fara,“ segir Sólborg aðspurð um ráðninguna.

Um 40 starfsmenn verða ráðnir við hótelið áður en það opnar 15. maí.