Sólarhrings vakt lögreglu við Eden

Lögreglan á Selfossi mun standa vaktina við brunarústirnar í Eden allan sólarhringinn fram á mánudag þegar vettvangsrannsókn hefst aftur.

Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kom á brunastaðinn í morgun og kannaði vettvanginn en ekki var talið óhætt að vinna á honum fyrr en stálgrindarbitar sem enn hanga uppi hafa verið fjarlægðir.

Upptök eldsins eru óupplýst og þangað til tæknirannsókn lýkur mun lögreglan vakta svæðið allan sólarhringinn og sjá til þess að óviðkomandi hrófli ekki við neinu í rústunum.

Starfsmenn Hringrásar unnu í dag að því að hreinsa vettvanginn en auk þeirra voru starfsmenn tjónasviðs VÍS við vinnu á svæðinu.