Söguskilti afhjúpuð á Selfossi

Sjö söguskilti með ljósmyndum úr sögu Selfoss voru afhjúpuð í gær. Verkefnið er unnið í samvinnu Sveitarfélagsins Árborgar og Héraðsskjalasafns Árnessýslu.

Skiltin eru staðsett við Tryggvatorg en íþróttatengd skilti eru staðsett á Selfossvelli. Héraðsskjalasafnið sá um myndavalið en skiltin eru hönnuð af Halli Karli Hinrikssyni, starfsmanni safnsins. Sveitarfélagið greiðir útlagðan kostnað af verkefninu.

“Við vonumst til að skiltin verði til ánægju og yndisauka fyrir bæjarbúa og ferðamenn, en skýringartextar fylgja hverju skilti á íslensku og ensku. Myndirnar eru margar yfir hálfrar aldar gamlar og eru teknar og færðar safninu til varðveislu af gömlum og góðum Selfyssingum, m.a Jóa á hæðinni, bræðrunum Gunnari og Herbert Grans, Tomma löggu, Sigurði Jónssyni, Ella danska svo dæmi séu tekin,” sagði Kjartan Björnsson, formaður menningarnefndar Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.

Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs Árborgar, og Þorsteinn Tryggvi Másson, héraðsskjalavörður, afhjúpuðu skiltin.