Söguskilti á Hvolsvelli

Fyrsta skiltið af svokölluðum söguskiltum í Hvolhreppi hinum forna hefur verið sett upp við Nýbýlaveg á Hvolsvelli til móts við kirkjugarðinn.

Á skiltinu er sagt frá tilurð Nýbýlanna, hverjir byggðu þau, hvernig hvert býli var uppbyggt ásamt myndum af húsunum og fólkinu sem byggði bæina.

Í nýjasta fréttabréfi Rangárþings eystra segir að saga þessara bæja sé merkileg og tengist arfleifð svæðisins. Það að geta lesið af skilti stutta lýsingu og skoðað myndir gerir söguna lifandi og bætir viðhorf og þekkingu fólksins á svæðinu fyrir sögu þess um leið og það auðveldar heimamönnum að endurmeta gildi svæðisins.

Það er Katrín J. Óskarsdóttir í Miðtúni 2 við Hvolsvöll sem fer fyrir verkefninu en hún er fædd og uppalin í Miðtúni sem var eitt af fjórum svokölluðum nýbýlum, en svo voru lóðirnar kallaðar sem Landnám ríkisins úthlutaði ungum bændum landskika til að byggja upp sveitabú. Nýbýlin voru fjögur og öll byggð uppúr 1950. Nú er aðeins hefðbundinn búskapur eftir á einum bæjanna.

Fleiri skilti eru í vinnslu og má þar telja skilti fyrir Króktún, en það var hjáleiga frá Stórólfshvoli ásamt litlum kotbýlum sem stóðu á Öldubakkanum fyrir neðan bæinn.

Króktún var eina hjáleigan þar sem búskap var haldið áfram eftir að skyldur hjáleigubóndans lögðust af en búskapur var þar fram yfir 1970.

Þá er jafnframt stefnt á að útbúa skilti fyrir Efra Hvol þar sem sýslumenn og oddvitar sátu, Gamla Sýslumannshúsið, Gamla Kaupfélagshúsið og Barnaskólann í Ásgarði.

Fyrri greinHerða eftirlitið vegna Bestu útihátíðarinnar
Næsta grein80 metra langur Njálurefill í bígerð